Hildur Þórðardóttir skrifar:
Vopnakaupaframlög og hlutdeild eða þátttaka Alþingis í stríði samfélaga úti í heimi stangast á við Stjórnarskrá íslenska lýðveldisins, Varnarmálalög nr. 34/2008 og landráðakafla Almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og brýtur beinlínis gegn þeim, ekki síst þar sem aðild að Nato skortir. Ísland er nú orðið beinn þátttakandi í stríði og þar með hernaðarskotmark þeirrar þjóðar sem kulmegin stendur. Með þessum ráðstöfunum sínum hafa íslenskir ráðamenn framið landráð.
Ég tel ólíklegt að þingmenn viti hversu háum upphæðum er búið að ráðstafa til stríðsins andstætt okkar grundvallarlögum sem er stjórnarskrá lýðveldisins svo og gildandi lögum að öðru leyti, miðað við skort á viðbrögðum þeirra. Árið 2022 fóru 2,2 milljarðar í hernað í Úkraínu, árið 2023 fóru 3,5 milljarðar og það sem af er ársins 2024 hafa farið 4,2 milljarðar. Reiknað er með 47% hækkun á árinu 2025 á hernaðarframlögum til Úkraínu, sem þýðir meira en 6 milljarða. Þetta eru samtals 16 milljarðar sem íslenska ríkið greiðir beint í hernað á fjórum árum og ríkisstjórnin hefur ráðgert að halda því áfram næstu árin.
Fyrir liggur að hér um bil 53% fari í efnahags- og mannúðaraðstoð og 47% fari til öryggis og varnarstarfs í Úkraínu. Þetta þýðir 7,5 milljarða í hrein vopnakaup, á meðan hinn helmingurinn fer stríðstengdan rekstur s.s. herbúninga fyrir konur svo þær geti fórnað lífi sínu jafnt og karlmenn. Á bls. 195 í fjárlagafrumvarpinu er kveðið á um 1.500 m.kr. hækkun frá fyrra ári vegna stuðnings við stríðið og á bls. 356 er 2.000 mkr. hækkun vegna efnahags- og mannúðaraðstoðar, svo mögulega gæti þetta verið meira en 7 milljarðar.
Í Stjórnarskránni er kveðið á um að Ísland sé lýðveldi með þrískiptingu valdsins. Engum er heimilt að viðhafa ráðstafanir sem ganga gegn því. Frumskylda löggjafans er sú að tryggja að allar ákvarðanir og athafnir sem teknar eru á þeim vettvangi standist grundvallarlögin, með öðrum orðum stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Í 21. gr. stjórnarskrár er til að mynda svo fyrir mælt eða til þess vísað að ráðamenn „megi ekki gera samninga ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins”.
Ráðamenn eru hér með tilgreindum vopnakaupastyrkjum og hernaðarafskiptum að setja ólögmætar og íþyngjandi og beinlínis samfélagslega stórhættulegar kvaðir á samfélagið og breytingar á stjórnarhögum sem ganga augljóslega gegn bæði stjórnarskrá og öðrum gildandi lögum. Ekki aðeins kvaðir síðustu fjögur árin, heldur hafa þeir lofað framlögum langt fram í tímann eins og áður segir. Þar með hafa þeir látið undan þrýstingi erlendra afla sem vilja veikja stjórn landsins og ná yfirráðum hér. Þetta eru bersýnilega hrein og klár landráð, ekki síst hvað varðar þar að lútandi verknaðarlýsingar X. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Með því að taka beinan þátt í stríði hafa ráðamenn sett okkur á lista yfir óvini Rússlands. Rússland er kjarnorkuveldi og hefur forseti þeirra, Vladimir Pútín, ítrekað hótað að beita kjarnorkuvopnum ef Vesturlönd halda stríðsrekstrinum áfram í Úkraínu. Ísland liggur varnarlaust í Norðurhafi, fámennt, afskekkt og náttúrulega mjög einangrað og því tilvalið skotmark til að sýna Vesturlöndum að honum sé alvara.
Með þessum gjörðum hafa utanríkisráðherra og ríkisstjórnin öll brotið gegn 87. gr. X. kafla Almennu hegningarlaganna nr. 19/1940 um landráð, en þar segir:
Geri maður samband við stjórn erlends ríkis til þess að stofna til fjandsamlegra tiltækja eða ófriðar við íslenska ríkið eða bandamenn þess, … þá varðar það fangelsi ekki skemur en 2 ár eða ævilangt.
Í órofa samhengi við þetta er svo einnig á að líta 20. gr. tilvitnaðra laga um tilraun sem teygir ábyrgðargrundvöllinn enn framar í atburðarrás og alveg að upphaflegum undirbúningsathöfnum eða forákvörðunum.
Þar að auki sleit utanríkisráðherra öllu sambandi við Rússland með því að vísa rússneska sendiherranum úr landi og kalla heim okkar eiginn frá Rússlandi. Í því tilliti er rétt að minna á svonefnda gagnkvæmnireglu þjóðarréttar sem lýtur að því að ríki geldur líku líkt viðvíkjandi framkomu annars ríkis. Í áratugi áttum við Íslendingar farsælt og gjöfult viðskiptasamband við Rússland sem utanríkisráðherra eyðilagði með gjörðum sínum svo stór fyrirtæki hér á landi gersamlega hrundu. Eru þetta að líkindum ein allra alvarlegustu ráðherraglöp í sögu þjóðarinnar og vísast í því samhengi aftur til landráðakafla almennra hegningarlaga og fyrirliggjandi og gildandi verknaðarlýsinga þar sbr. nánar hér strax á eftir.
Samkvæmt 88. gr. nefndra laga segir að hver „sem opinberlega í ræðu eða riti mælir með því eða stuðlar að því, að erlent ríki byrji á fjandsamlegum tiltækjum við íslenska ríkið … sem líklegar eru til að valda slíkri hættu, skal sæta … fangelsi allt að 6 árum.“
Í 91. gr. hegningarlaganna segir: „Sömu refsingu skal enn fremur hver sá sæta, sem falið hefur verið á hendur af íslenska ríkinu að semja eða gera út um eitthvað við annað ríki, ef hann ber fyrir borð hag íslenska ríkisins í þeim erindrekstri.”
Íslenskir ráðamenn bera bersýnilega engan veginn hag íslenska ríkisins og þá um leið almennings fyrir brjósti með tilgreindum samningum eða tilburðum varðandi vopnakaupastyrki og beina þátttöku í stríðsrekstri, heldur þvert á móti setja þeir okkur í stórhættu og stórskuldir andstætt m.a. framangreindum ákvæðum stjórnarskrár og refsilaga sem og Varnarmálalaga nr. 34/2008 Þetta eru 16 milljarðar af fé sem Íslendingar eiga ekki einu sinni fyrir, heldur þarf að taka lán hjá aþjóðabönkum sem næstu kynslóðir þurfa að greiða upp með ærnum tilkostnaði. Eru þingmenn sáttir við það?
Í Varnarmálalögum nr. 34/2008 er skýrt tekið fram að valdheimildir íslenskra stjórnvalda lúti eingöngu að varnartengdum verkefnum og öryggi landsins. Þau byggja á þeirri grundvallarforsendu og þungamiðju að við séum herlaus þjóð og hlutlaus og andstöðu við mótlæg sjónarmið. Bein þátttaka í stríði og vopnakaupum eða aðild að slíkum verknuðum eru að stjórnarskrár og refsilögum algerlega óheimil og engin haldbær lagaheimild fyrir hendi í því tilliti. Þeirri réttaraðstöðu er að sjálfsögðu ekki heimilt að breyta með fjárlögum eða öðrum ákvörðunum fjárveitingarvaldsins. Þessi vopnakaup hafa ekki stuðlað að öryggi landsins eins og áður segir, heldur þvert á móti gert Ísland að hernaðarskotmarki.
Atlantshafsbandalagið er varnarbandalag og í samningnum er hvergi minnst á að aðildarríki þurfi að reiða af hendi fjármagn til vopnakaupa. Við höfum verið aðilar að samningum í 70 ár án þess að þurfa að reiða fram krónu til vopnakaupa.
Auk þess sem að framan hefur nú verið rakið eru hvorki Úkraína né Rússland aðilar að Atlantshafsbandalaginu og því ber okkur engin skylda að skipta okkur af þessu stríði heldur er það þvert á móti algerlega ólöglegt. Afskipti okkar eru einungis vegna þrýstings frá aðilum innan NATO og hernaðararmi Bandaríkjanna sem hafa greinilega afgerandi ásetning til knésetningu Rússlands og auðlindayfirtöku í Úkraínu og eru allt eins reiðubúnir að fórna úkraínsku þjóðinni í þeim tilgangi. Viljum við Íslendingar vera þátttakendur í slíku landráði og mannréttindatortímingum?
Við höfum alltaf verið stolt af því að vera friðsöm, vopnlaus og herlaus þjóð. Leiðtogafundurinn árið 1986 var sönnun á stefnu landsins, að beita sér frekar í friðarumleitunum en að blanda sér í vopnuð átök. Alla tíð höfum við frekar sent hjúkrunarlið og hjálparstarfsmenn en alls ekki hermenn eða vopn og þjóðin verið sátt við það. Nú allt í einu hefur ríkisstjórn landsins, andstætt stjórnarskrá og lögum, umsnúið algerlega stefnu þjóðarskútunnar án nokkurra haldbærra röksemda og andstætt lögum og lýðræðislegum grundvallargildum öðrum.
Í nýrri könnun Prósent sem gerð var fyrir félagskap gegn stríði nú í september s.l. og spurt var hversu fylgjandi eða andvígt fólk væri gagnvart vopnakaupum íslenska ríkisins, voru 60% eindregið á móti því að kaupa vopn og var það nokkuð jafnt á alla flokka. Úrtakið var tæplega 1100 manns. Því sést að afstaða almennings hefur ekkert breyst.
Það er engin réttlætingarástæða merkjanleg fyrir þessum vopnakaupum og hernaðarbrölti eins og rökstutt hefur verið rækilega hér að framan. Því ber að sjálfsögðu þingmönnum stjórnskipuleg skylda til þess að tryggja að umrædd fyrirætlan verði tekin út úr fjárlagafrumvarpi ársins 2025 undir eins.
Reykjavík 6. október 2024
Hildur Þórðardóttir
Sendu grein til birtingar:
Sendu forsetanum hvatningu
Láttu heyra í þér og sendu hvatningu og áskorun til Höllu Tómasdóttur
STÖÐVUM VOPNAKAUPIN
Styrktu kynningarátakið
Við þurfum fjármuni til að greiða auglýsingar og kynningar til einstaklinga og fyrirtækja.
Greiða með korti eða leggja inná banka:
0133-15-008494 Kt: 540795-2589 Friður2000
Skráð sem opinber fjársöfnun hjá Sýslumanni