Umsögn um Fjárlög 2025
Sent Alþingi 6 október 2024
Mun Alþingi fremja landráð?
Frumvarpið fjárlög 2025 sem inniheldur áætlun um milljarða króna til vopnakaupa í þágu erlends ríkis til stríðs á erlendri grundu, er stríðsyfirlýsing gegn Íslensku þjóðinni, forseta Íslands og stærsta kjarnorkuveldi heims.
Hver sá þingmaður sem styður slík vopnakaup er um leið að fremja landráð. Undirriti forseti Íslands frumvarpið og veiti þannig heimild til slíkra vopnakaupa er forsetinn að svíkja sína kjósendur með afgerandi hætti og vísvitandi að fremja landráð.
Stefna stjórnvalda um þjóðaröryggi heimilar ekki vopnakaup
Stefna stjórnvalda um þjóðaröryggi byggist á þeim skuldbindingum sem felast í stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og hafi grunngildi þjóðarinnar að leiðarljósi, lýðræði og virðingu fyrir réttarríkinu og alþjóðalögum, mannúð og verndun mannréttinda, jafnrétti allra og sjálfbæra þróun, afvopnun og friðsamlega lausn deilumála. Grundvallarforsenda stefnunnar sé staða Íslands sem herlaust land sem tryggir öryggi sitt og varnir með virkri samvinnu við önnur ríki og innan alþjóðastofnana. Að tryggja víðtæka öryggishagsmuni Íslands með virku alþjóðasamstarfi á grundvelli alþjóðalaga og með friðsamlega lausn deilumála, afvopnun, virðingu fyrir lýðræðislegum gildum, mannréttindum og réttarríkinu
Í hátíðarræðum hafa ráðamenn gjarnan vísað til þessa eins og forsætisráðherrann Katrín Jakobsdóttir gerði 17. júní 2022: “”Í þessu ölduróti hefur utanríkisstefna Íslands verið skýr. Ísland er og verður herlaus þjóð sem byggir fullveldi sitt á virðingu fyrir alþjóðalögum og virku samstarfi við önnur ríki á vettvangi alþjóðastofnana. … fyrir friði og afvopnun … Síðastnefnt er ekki síst mikilvægt nú þegar mörg ríki heims auka útgjöld til hermála. Einmitt við þær aðstæður er afar brýnt að afvopnun verði áfram í forgrunni, að veröldin ani ekki út í nýtt vígbúnaðarkapphlaup með tilheyrandi hörmungum, og komið sé böndum á hernaðarviðbúnað með gagnkvæmum samningum sem auka gegnsæi og traust, alveg eins og hyggnir þjóðarleiðtogar gerðu á efstu dögum kalda stríðsins. Í Gerplu Halldórs Laxness segir norskur bóndi við Þormóð Kolbrúnarskáld: „Í styrjöld munu þeir einir miður hafa, er trúa stáli.“”
Yfirlýsing Katrínar Jakobsdóttur á friðarráðstefnu í Hörpu (The Imagine Forum Nordic Solidarity for Peace): “Við eigum að setja stefnuna í átt að friði, ekki frekari hernaði.”
Það er áhyggjuefni þegar hugur fylgir ekki máli og ráðamenn hafi gert afdrifarík mistök með því að ganga til liðs við hermang sem ógnar framtíð okkar.
Íslensk stjórnvöld undir forsæti Katrínar Jakobsdóttir gerðust þátttakendur í styrjöld á erlendri grund og lýstu þannig yfir stríði við stórveldi sem er vopnað kjarnorkuvopnum. Hernaðarsérfræðingar telja nú meiri líkur en minni að þetta ástand þróist í styrjöld með kjarnorkuvopnum á norðurslóðum og Ísland skotmark.
Samkvæmt frétt sem var birt á vef Stjórnarráðs Íslands þann 25 mars 2024 ákvað ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur að leggja til 300 milljónir af skattfé þjóðarinnar til kaupa á skotfærum fyrir stórskotalið erlends ríkis sem á í stríði við annað erlent ríki, og til viðbótar 75 milljónir króna til kaupa á öðrum hergögnum til að etja konum út í þessa styrjöld á erlendri grund. Áður hafði komið fram að Íslensk stjórnvöld höfðu tekið að sér að sjá um vopnaflutninga og greiða fyrir fjölda slíkra flutninga af skattfé þjóðarinnar. Í stað þess að fylgja þjóðaröryggisstefnu Íslands og eigin yfirlýsingum í hátíðarræðum til þjóðarinnar vann Katrín Jakobsdóttir að því undir leiðsögn og forystu Bandaríkjanna að egna stærsta kjarnorkuveldi Evrópu til stríðs. Þessi staðreynd kom fram á fundi Katrínar með öðrum leiðtogum, m.a. forseta Úkraínu, en leiðtogarnir hafa verið að etja hvor öðrum til stuðnings við vopnakaup undir gróðavæntingum hergagnaðnaðarins. Í bréfi Friðar 2000 til forseta Íslands um þetta mál í maí 2024 sagði: “Í ljósi þess hvaða afleiðingar þetta getur haft fyrir framtíð þjóðarinnar er inngrip forseta nauðsynlegt til að tryggja að stjórnskipan og lýðræðislegur réttur þjóðarinnar til mikilvægra ákvarðana sé virtur.”
Aðild Íslands að NATO
Ísland gekk til liðs við NATO undir þeim formerkjum að um væri að ræða varnarbandalag til varnar árás á Íslensku þjóðina eða annað NATO ríki. NATO er félag fáeinna þjóða en ekki alþjóðastofnun samkvæmt stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Íslenskir ráðamenn eru komnir langt út fyrir sitt umboð frá þjóðinni þegar þeir eru farnir að taka beinan þátt í styrjöld á erlendri grundu í ríki sem ekki er aðildarríki NATO.
Þetta samræmist ekki samningnum um NATO, hvorki inngangi samningsins né 8 gr. samningsins. Einnig er um að ræða brot á alþjóðalögum og stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Stjórnvöldum ber að fá samþykki öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna fyrir hverskyns hernaðaraðgerðum gegn annarri þjóð. Íslenskir ráðamenn hafa ekki umboð frá kjósendum til þátttöku í styrjöldum erlendis.
Brot á stjórnarskrá
Ljóst er af framangreindu að þátttaka Íslands í styrjöld á erlendri grundu samrýmist ekki alþjóðalögum og stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna, samrýmist ekki yfirlýstum markmiðum Íslands sem aðildarríki að NATO, og er mikilvæg stjórnarráðstöfum og er þess getið í stjórnarskrá Íslands hvað ráðamönnum ber að gera þegar slíkt kemur upp: Stjórnarskrá Íslands, í 16.gr. segir: “Lög og mikilvægar stjórnarráðstafanir skal bera upp við forseta í ríkisráði”.
Af þessu tilefni spurði Ástþór Magnússon forsetaframbjóðandi í fyrri kappræðum forsetaframbjóðenda á RÚV 4 maí 2024 fyrrverandi forsætisráðherra, forsetaframbjóðandann Katrínu Jakobsdóttur eftirfarandi: “Bar Katrín upp við forseta á ríkisráðsfundi þá ákvörðun að kaupa vopn fyrir skattfé þjóðarinnar?”
Svar Katrínar kom verulega á óvart. Hún sagði breytingar á utanríkisstefnu Íslands að hverfa frá þeirri margyfirlýstu friðarstefnu Íslendinga að fara ekki með stríði gegn annarri þjóð og stuðla að afvopnun og friðsamlegri lausn deilumála félli ekki undir hlutverk forsætisráðherra samkvæmt stjórnskipan, það væri alfarið hlutverk utanríkisráðherra og á hans ábyrgð að taka ákvörðun um að hefja vopnakaup til stríðs á erlendri grundu utan NATO.
Stjórnskipan landsins í uppnámi
Fyrrum forsætisráðherra til fjölda ára fór ekki með rétt mál og afhjúpaði að stjórnskipan landsins er komin í uppnám. Svar Katrínar má skilja þannig að utanríkisráðherra hafi verið fært einræðisvald yfir utanríkisstefnu Íslendinga og hann geti að eigin frumkvæði, án þess að spyrja kóng eða prest, skuldbundið Ísland í stríð gegn öðrum þjóðum. Samkvæmt upplýsingum fyrrum forsætisráðherra hefur utanríkisráðherra ótakmarkaða heimild til að nýta skattfé þjóðarinnar til kaupa á skotfærum fyrir stórskotalið stríðsaðila, utan NATO, þúsundir kílómetra frá ströndum Íslands í stríði sem hefur ekkert með Ísland eða varnir landsins að gera. Hér er um mjög hættulegt fordæmi að ræða sem getur ekki verið dutlungum eins einstaklings háð, afstaða þjóðarinnar þarf að liggja til grundvallar svo stefnumarkandi ákvörðun. Því er nauðsynlegt að forsetinn taki á þessum mistökum nú þegar.
Í stjórnarskrá segir um hlutverk forsætisráðherra: “Ráðherrafundi skal halda um nýmæli í lögum og um mikilvæg stjórnarmálefni. Svo skal og ráðherrafund halda, ef einhver ráðherra óskar að bera þar upp mál. Fundunum stjórnar sá ráðherra, er forseti lýðveldisins hefur kvatt til forsætis, og nefnist hann forsætisráðherra.”
Einnig virðist sem forsætisráðuneytið hafi ekki tekið tillit til forsetaúrskurðar sem gerður var á Bessastöðum, 31. janúar 2022 um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands en þar segir að Forsætisráðuneyti fari með Stjórnskipan lýðveldisins Íslands og Stjórnarráð Íslands í heild, þar á meðal: Þjóðaröryggisráð, Almannavarna- og öryggismálaráð.
Hvernig samrýmist þetta yfirlýsingu Katrínar Jakobsdóttur fyrir framan þjóðina og tilvonandi forseta lýðsveldisins að hver og einn ráðherra fari með sitt málefnasvið samkvæmt stjórnskipaninni án samráðs við forseta Íslands, Alþingi eða aðra ráðherra ríkisstjórnarinnar, og sú ákvörðun að umbreyta utanríkisstefnu þjóðarinnar heyri alfarið undir utanríkisráðherra og hans ábyrgð og forsætisráðherra eða forseti hafi þar ekkert hlutverk?
Fyrrum forsætisráðherra laug að þjóðinni
Fyrir utan þá grafalvarlegu stöðu sem komin er upp með túlkun forsætisráðuneytisins á stjórnskipan landsins, fáum við ekki betur séð en Katrín Jakobsdóttir hafi farið rangt með þegar hún svarað forsetaframbjóðendum og þjóðinni spurningunni. Í bréfi Friðar 2000 til forseta Íslands sem sjá má á vefnum forsetakosningar.is má sjá myndir af Katrínu frá leiðtogafundi 13. desember 2023., þar sem hún lagði á ráðin um vopnakaupin:
The Nordic countries have made solid and robust military contributions to Ukraine, including air defence systems, artillery systems and munitions, Leopard main battle tanks, armoured combat vehicles. The Nordic countries will continue their military support to Ukraine within the US-led Defence Contact Group framework. Accountability must be ensured. Yfirlýsing
Ráðherrar fóru fram úr valdheimildum sínum
Ljóst er að Katrín Jakobsdóttir fór fram úr valdheimildum sínum með stuðningi við hernað, á svig við stjórnarskrá landsins og sniðgekk siðareglur sem hún sjálf skrifaði undir 6. desember 2023 en þar segir undir kaflanum Frumskyldur: “Ráðherra hefur almannahagsmuni ávallt að leiðarljósi í störfum sínum. Ráðherra hefur í heiðri lýðræðisleg gildi, mannréttindi og meginreglur réttarríkisins. Ráðherra starfar í anda gagnsæis, sannsögli, ábyrgðar og heilinda. Ráðherra sinnir starfi sínu af alúð, trúmennsku og heiðarleika. Hann beitir því valdi er fylgir embættinu á grundvelli laga og stjórnarskrár af hófsemi og sanngirni og án tillits til eigin hagsmuna. Og undir kaflanum Faglegir stjórnarhættir: “Ráðherra leggur sig fram um að eiga gott samstarf við samráðherra og tryggir viðeigandi samráð við þá um stjórnarmálefni.”
Grunur um spillingu í kringum íslensk vopnakaup fyrir Úkraínu
10 júní s.l. birti Samstöðin frétt með um meinta spillingu við vopnakaup Íslenskra stjórnvalda:
Það kom mörgum Íslendingum í opna skjöldu þegar utanríkisráðuneytið tilkynnti um vopnakaup til stuðnings Úkraínuhers. Margir hafa gagnrýnt kaupin harkalega enda gengur hún gegn yfirlýstri Þjóðaröryggisstefnu Íslands þar sem þátttaka Íslands t.d. í Atlandshafsbandalaginu er fyrst og fremst sögð á borgaralegum forsendum. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra hefur varið vopnakaup íslenska ríkisins á þeim forsendum að Ísland verði að hjálpa til við að verja friðinn en ekki eru allir sammála þessari stefnu. Nýkjörinn forseti Íslands, Halla Tómasdóttir hefur lýst sig andvíga því að Íslendingar fjármagni vopnakaup og sömuleiðis er varaþingmaður Samfylkingarinnar Guðmundur Árni Stefánsson á sama máli og sagði það galið að leggja 16 milljarða íslenskra króna til vopnakaupa. Flestir eru sammála um að hér hefur orðið róttæk breyting á utanríkisstefnu Íslands án eðlilegs samráðs og mögulega gegn vilja þjóðarinnar.
Samkvæmt utanríkisráðherra er um að ræða milliríkjasamning milli Íslands og Úkraínu sem ekki fer í gegnum Atlandshafsbandalagið heldur var Tékklandi falið að kaupa vopnin. Það var á öryggisráðstefnunni í Munchen í febrúar síðastliðnum að forseti Tékklands, Petr Pavel, greindi frá því að Tékkland hefði fundið leið til að kaupa sprengikúlur (artillery shells) utan Evrópusambandsins sem hægt væri að tryggja á stuttum tíma. Seinkun á framboði vopna frá Bandaríkjunum til Úkraínu hafði að sögn Úkraínumanna skapað alvarlegt ástand á framvarðarlínunni.
Samkvæmt stjórnvöldum í Tékklandi hafa alls 15 ríki stutt Tékka við kaupin á vopnunum, þar á meðal Kanada, Noregur, Svíþjóð og Danmörk. Um ræðir 1.8 milljarða Bandaríkjadala sem eiga að hafa safnast. En fulltrúum frá Tékklandi ber ekki saman um hvað mikið hafi verið keypt, hvaðan og hverjir séu búnir að borga í sjóðinn ef marka má yfirlýsingar forsetans, forsætisráðherrans og varnarmálaráðherrans.
Sameinuðu Þjóðirnar hafa hvatt til þess að það sé algjört gagnsæi við öll vopnakaup. Í október 2023 vöruðu Sameinuðu Þjóðirnar við skort á gagnsæi þegar kemur að vopnakaupum til Úkraínu. Aðalritari Sameinuðu Þjóðanna hefur auk þess hvatt til þess að Rússland og Úkraína setjist að samningaborðinu. Tékkland er í 47. sæti á Transparency International listanum þegar kemur að spillingu. Það þarf því ekki að koma á óvart að ýmsar spurningar eru að vakna um vopnakaup Tékka fyrir Úkraínu. Í grein í Eurasia Review eru settar fram alvarlegar spurningar um hvernig vopnakaupin hafa farið fram og hvaðan þau séu keypt. Það er því vert að spyrja er Ísland með því að útvista vopnakaupum til Tékklands mögulega að leggja til fjármagn sem endar hjá ríkjum sem brjóta á mannréttindum eða eru einstakir einstaklingar að hagnast á ferlinu. Gengur slík fjármögnun gegn stjórnsýsluákvæðum íslenska ríkisins?
Margföldun á vopnakaupum
Frumvarpið, fjárlög 2025 með milljarða stuðning við hernað erlends ríkis var lagt fram sama dag og nýkjörin forseti Íslands Halla Tómasdóttir ávarpaði þingheim við setningu Alþingis 10 september 2024. Frumvarpið fjárlög 2025 inniheldur margföldun á vopna kaupum til stuðnings erlendu ríki til styrjaldar utan NATO.
Ríkisstjórnin ætlar að rífa nær sjö milljarða úr launaumslögum íslenskra launþega og senda peningana úr landi til vopnakaupa og stuðnings við hernaði erlends. Vopnin eru ætluð til árásar á kjarnorkuveldi sem hótar að ráðast á þau ríki sem senda vopn. Það er með ólíkindum hvernig kjörnir fulltrúar þjóðarinnar ganga þannig þvert gegn hagsmunum þjóðar sinnar og grafa undan öryggi landsins til að styðja erlent ríki í stríðsrekstri á fjarlægum slóðum. Stríð sem hefur ekkert með varnir Íslands að gera.
Undanfarin ár hefur mátt lesa fréttir um niðurskurð í velferðarkerfi þjóðarinnar sem svo sannarlega hefur þörf fyrir þessa peninga. Stríðsskatturinn samsvara rúmum 25 þúsund krónum á hvern einasta kjósana í landinu, rúmum 100 þúsund krónum á einu kjörtímabili, nær hálfa milljón á meðal fjölskyldu í landinu.
Eiga sprengjur frá Íslandi að auka stoðtækjaframleiðslu Íslendinga?
Forseti Íslands Halla Tómasdóttir talaði um það í sínu forsetaframboði að Íslendingar ættu frekar að styðja með öðrum hætti, og nefndi í því sambandi sérstaklega að við ættum frekar að senda sáraumbúðir frá Kerecis og stoðtæki frá Össur.
Í hvert sinn sem brjálaðir stríðsherrar sprengja fólk í tætlur bætast nýir einstaklingar í hóp særðra og hreyfihamlaðra. Síðustu mánuði hafa tugir þúsunda bæst við þennan hóp eftir sprengjuregn m.a. í austur evrópu og mið austurlöndum. Þúsundir barna sem ekki voru drepin köldu blóði eru nú komin á biðlista eftir stoðtækjum. Er það framtíðarsýn Alþingis að feta í fótspor stærsta vopnaframleiðsluríkis heims og gera stríð að tekjulind? Vilja Íslendingar viðskiptamódel sem byggir á að senda sprengjur til að limlesta fólk og auka þannig framleiðslu Íslenskra sáraumbúða og stoðtækja? Viljum við þannig draga Íslensku þjóðina og framúrskarandi Íslensk fyrirtæki og grandvaralausa starfsmenn inní þessa brjáluðu hringrás?
Að taka þátt í styrjöld með því að greiða fyrir vopn og senda síðan fórnarlömbum árásanna sáraumbúðir og stoðtæki er tvískinnungur. Íslendingar þurfa að ákveða hvort þeir eru með mannúð og friði eða hvort þjóðin ætlar að feta í fótspor þeirra sem hafa viðskiptahagsmuni af þátttöku í styrjöldum og fjöldamorðum. Allar styrjaldar enda með friðarsamningum. Aldrei hefur verið meiri þörf en núna á rödd friðar á fundum NATO og á alþjóðlegum vettvangi. Eins og forseti Íslands sagði í framboði sínu geta Íslendingar lyft grettistaki með slíkar áherslur.
Stríðsyfirlýsing Íslands gegn Rússlandi
Verði milljarða króna vopnakaup að lögum frá Alþingi jafngildir það formlegri stríðsyfirlýsingu Íslands gegn Rússlandi. Tveimur dögum eftir að frumvarpið var lagt fram á Alþingi ítrekaði forseti Rússlands viðvörun sína að auknar vopna sendingar frá NATO ríkjum til Úkraínu sem notað sé til árása á Rússland leiði til þess að Rússland sé komið í stríð við NATO.
Forsetinn sagði að heimildir til handa Úkraínu til að nota langdræg vopn frá NATO ríkjum til að gera árásir á skotmörk í Rússlandi jafngilti stríðsyfirlýsingu af hálfu þeirra ríkja sem leggðu til vopnin og Rússar yrðu neyddir til að grípa til “viðeigandi ráðstafana”. Þá sagði Vladimir Pútín Rússlandsforseti á fundi með öryggisráði sínu 25 september s.l. að Rússar myndu íhuga að beita kjarnorkuvopnum bærust þeim áreiðanlegar upplýsingar um yfirvofandi loftárás með hefðbundnum vopnum.
Evrópa og Ísland varnarlaus gegn árás Rússa
Langdrægar kjarnorkusprengjur Rússa eru flugskeyti sem fara á margföldum hljóðhraða. Slíkri sprengju er skotið langt upp í himinhvolfið og kemur síðan niður utan úr geimnum. Forseti Rússlands lýsti þessu á ráðstefnu 7 júní í St. Petersburg: „Evrópa ræður ekki yfir aðvörunarkerfi, sem varar snemma við. Á þann hátt er álfan meira eða minna varnarlaus,“ sagði Pútín að sögn BBC. Ljóst er að Ísland hefur engar varnir gegn slíku flugskeyti, og frekar ólíklegt er að Bandaríkin eða aðrar NATO þjóðir muni svara viðvörunarskoti með kjarnorkusprengju á Ísland með því að senda slíkar sprengjur á Rússland því það myndi koma keðjuáhrifum á stað sem væri líklegt til að útrýma allri heimsbyggðinni. Líklegra væri að slíkt viðvörunarskot myndi draga menn að samningaborðinu eftir að hafa séð gífurlega eyðingarmátt í kjölfar slíkrar sprengju á Ísland sem gæti lagt landið í eyði og útrýmt stórum hluta Íslensku þjóðarinnar.
Ísland líklegt skotmark kjarnorkuvopna
Út frá hernaðarlegu sjónarmiði er Ísland eitt einfaldasta skotmark til að senda viðvörun til NATO með kjarnorkusprengju. Landið er vel einangrað úti í ballarhafi langt frá öðrum byggðum, með aðeins nokkur hundruð þúsund íbúa en sem gegnir í raun hlutverki flugmóðurskips bandaríkjanna í Atlantshafi tilbúið til þátttöku í stríð við Rússland með fullbúnum herflugvelli í Keflavík, birgðastöð og stjórnstöð í neðanjarðarbyrgi.
Ýmsir rússneskir áhrifamenn hafa talað um nauðsyn þess að skjóta viðvörunarskoti á mikilvægt hernaðar skotmark innan NATO. Verði það niðurstaða herráðs Rússland að fara í slíka aðgerð, er Ísland sem rússneska utanríkisráðuneytið hefur nú skilgreint sem óvinaþjóð eftir lokun sendiráðs og vopnasendingar, það skotmark sem líklegt er til að lágmarka mannfall og náttúruspjöll. Eyjan í Atlantshafinu yrði hugsanlega óbyggileg næstu áratugina en í stærra samhengi yrði mannfallið innan við hálfa milljón manns og náttúruspjöll einangruð að mestu við eyju í miðju Atlantshafi. Mun minni skaði en ef ráðist yrði á t.d. Bretland eða Frakkland.
“Fáum númeraða eldflaug á okkur”
Fyrrum þingmaður Framsóknarflokksins Frosti Sigurjónsson fór hörðum orðum um Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur í viðtali á Brotkast fyrir fáeinum dögum: „Ísland gerði alveg gríðarleg mistök, varð fyrsta landið og eina landið til að loka sendiráði sínu í Rússlandi, og það var okkar utanríkisráðherra, Þórdís Kolbrún…Ég held að það eina sem hún fær út úr þessu sé að við fáum númeraða eldflaug á okkur, kjarnorkuflaug sko.“ Frosti sagðist gruna Þórdísi um að hafa þarna unnið verk fyrir NATO. „Við þurfum að reka okkar sjálfstæðu utanríkisstefnu, við getum ekki verið að breytast úr friðelskandi þjóð sem að vill í raun og veru… við höfum alveg frá örófi alda lýst yfir hlutleysi í þessum átökum.“
Frosti segir að ákvörðun Þórdísar jaðri við landráð. „Hún er að vinna gegn hagsmunum okkar og draga okkur inn í stríð. Það er landráð. Það er bannað samkvæmt lögunum. Þetta er einn versti utanríkisráðherra sem við höfum haft, að mínu mati. Alveg ævintýrlega slæmur.
Spurningar sem Utanríkisráðherra þarf að svara.
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir birti grein á visir.is 6. júní þar sem hún reynir að réttlæta vopnakaup Íslands fyrir Úkraínu. Guðlaugur Bragason heimspekingur skrifaði svargrein með spurningum sem við skorum á alþingismenn að spyrja ráðherrann um svör við:
1) „En þegar kemur að fjármagni þá viljum við nýta það til brýnustu þarfa Úkraínu, samkvæmt þeirra eigin mati.”
Hvað þýðir þessi setning nákvæmlega? Að skattpeningum Íslendinga sé ráðstafað að mati einhvers fólks í Úkraínu? Hver sér um að álykta réttmæti þessa mats hér á landi og þá sérstaklega í því ljósi að Úkraína er eitt spilltasta ríki Evrópu?[2]
Önnur spurning varðandi þessa tilvitnun. Þetta mat Úkraínu á því hvert skattpeningar Íslands fara, hversu langt ætlum við að ganga? Mun Ísland t.d. fjármagna morðtilræði á rússneskum embættismönnum ef Úkraína metur sem svo að það sé samkvæmt þeirra brýnustu þörfum?
2) Þú segir að varnir séu ekki andstaða við frið heldur til að verja friðinn. Hefur þú eitthvað kynnt þér eða tjáð þig um viðtalið við Naftali Bennet fyrrverandi forsætisráðherra Ísraels sem hann birti á youtube-rás sinni 4. febrúar 2023, 7 mánuðum eftir að hann hætti sem forsætisráðherra?[3]
Bennet segir þar meðal annars frá því hvernig Zelensky forseti Úkraínu hafi beðið hann um að vera milliliður í viðræðum við Rússa fljótlega eftir upphaf innrásarinnar. Viðræðurnar þróuðust síðan þannig með milligöngu Bennet að Putin samþykkti að Zelensky yrði ekki fjarlægður af stóli og að Úkraína yrði ekki afvopnuð. Zelensky samþykkti að sama skapi að Úkraína myndi ekki ganga í NATO. Bennet segir að þarna hafi verið augljóst fyrir sér að báðir aðilar vildu vopnahlé og það sæi fyrir endan á átökunum. Bennet lýsir því svo hvernig Boris Johnson fyrrverandi forsætisráðherra Breta hafi þrýst á Zelensky að semja ekki og stríðið hafi því haldið áfram.[4] Utanríkisráðherra Tyrklands tók í sama streng um aðkomu NATO að því að slíta friðarviðræðum í öðru viðtali.[5]
Hefur þú kynnt þér þetta friðarsamkomulag eða viltu meina að fyrrverandi forsætisráðherra Ísraels og utanríkisráðherra Tyrklands séu að búa þetta til? Er ekki fyrsta leiðin til að „verja friðinn” sú að hvetja og beita sér fyrir því að samþykktir friðarsáttmálar séu undirritaðir?
3) Þú nefnir þann „langsótta” möguleika að Ísland gæti verið hertekið vegna hernaðarlegs mikilvægis. Ef styrjöld brýst út þá sé ég ekki hvernig aðild að NATO sé að fara bjarga Íslandi eitthvað sérstaklega. Keflavíkurflugvöllur yrði líklega eitt fyrsta skotmarkið í slíku stríði og til að sprengja hann upp þyrfti engan landhernað. Maður spyr sig í þessu ljósi hvort það sé ekki óþarfi að styggja stærsta kjarnorkuveldi sögunnar að óþörfu ef ske kynni að flugvöllurinn yrði gerður að skotmarki?
4) „Það hefur hefur því verið áhersla mín, í góðu samráði við utanríkismálanefnd Alþingis og ríkisstjórn að Ísland leiti allra leiða til þess að sýna vina- og bandalagsþjóðum okkar fram á að við séum verðugir bandamenn”
En Úkraína er ekki í NATO? Ef áherslur hernaðarbandalagsins snúast um að aðstoða vinaþjóðir sem eru ekki meðlimir bandalagsins, hvers vegna að stoppa við Úkraínu? Ætti bandalagið þá ekki að setja fótinn niður milli Ísraels og Palestínu, eða eru „vinaþjóðir” aðeins þær sem forsvarsmenn NATO ákveða að uppfylli þau skilyrði hverju sinni?
5) „Höfum líka í huga að öll helstu vina- og bandalagsríki ganga mun lengra í stuðningi við Úkraínu og ekkert þessara ríkja lætur beinar hótanir og ógnandi talsmáta Rússa slá sig út af laginu”.
Af hverju eigum við að bera okkar stuðning saman við aðrar þjóðir? Við erum lítið herlaust land. Er ekki nóg framlag að okkar hálfu að NATO sé með greiðan aðgang að þessu hernaðarlega mikilvæga svæði sem Ísland er?
Er einhver lína þar sem háttvirtur utanríkisráðherra er tilbúinn að láta „beinar hótanir Rússa“ slá sig útaf laginu, eða er Ísland í þessu stríði til endaloka hvað sem gerist?
6) „Ef við ætlum að þiggja þá vernd þá þurfum við að geta staðið kinnroðalaust með bandalagsríkjum okkar og reyna ekki að sleppa ódýrt frá þeim sameiginlegu verkefnum til að verja frið okkar og frelsi.”
Ég endurtek, ef hernaðarlegt mikilvægi Íslands er svona dýrmætt fyrir NATO, er það þá ekki einmitt skylda þín sem ráðherra að vinna í því að við sleppum ódýrt frá þessu samstarfi? Af hverju ekki að setja hagsmuni Íslands í fyrsta sæti og einmitt að tryggja við við getum komist eins ódýrt og óhætt frá svona samstarfi og hægt er?
Ég spyr því að lokum Þórdís. Ef um er að ræða sameiginleg verkefni með bandamönnum okkar þar sem þú telur að framlag Íslands þurfi að vera í takt við önnur aðildaríki NATO. Hvernig stendur þá á því að við erum eina þjóðin sem hefur látið loka sendiráði okkar í Rússlandi? [6]
Sendiráð eru hlutlausir fundarstaðir þar sem m.a. er hægt að eiga viðræður um frið, en með lokun sendiráðsins í Moskvu þá höfum við lokað á þann möguleika. Átti friður ekki að vera takmarkið?
Landráð forsætisráðherra
Í aðdraganda forsetakosninga 1 júní 2024 mótmæltu forsetaframbjóðendurnir Ástþór Magnússon og Halla Tómasdóttir því að stjórnvöld væru að kaupa vopn fyrir 300 milljónir króna. Allstaðar sem við mættum almenningi á ferðum okkar sem forsetaframbjóðendur var það ljóst að nánast enginn styður slík vopnakaup Íslenskra ráðamanna.
Nokkrum dögum eftir forsetakosningar árið 2024 kom forsætisráðherra kom heim með samning sem hann hafði gert um að styðja stríðsrekstur Úkraínu um 25,5 milljarða á næstu fjórum árum. Samninginn gerði hann við einstakling sem situr eftir að kjörtímabil hans er útrunnið og í raun umboðslaus sem forseti þar í landi. Við sjáum síðan þessu frumvarpi fyrir fjárlög 2025 amk tíföldun á framlögum til vopnakaupa fyrir þetta erlenda ríki. Nær 7 milljarðar í málaflokkinn þar af vopn fyrir þrjá milljarða króna - Tíföldun!
Vopnakaup þvert á þjóðarvilja, ekki til varnar landsins, fjármögnuð af skattfé Íslendinga, til styrjaldar í fjarlægu landi utan NATO, eru um leið stríðsyfirlýsing og ögrun gegn stórveldi búið kjarnorkuvopnum sem hefur hótað að svara fyrir sig. Þannig er Íslenskri þjóð stefnt í verulega hættu af glannalegum stjórnarathöfnum. Vopnakaupin eru á skjön við þjóðaröryggisstefnu landsins, NATO samninginn og sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Að stofna öryggi ríkisins í hættu með stuðningi við erlent ríki eru landráð samkvæmt almennum hegningarlögum.
Þvert á þjóðarvilja og yfirlýsta stefnu forseta Íslands
Í forsetaframboði nýkjörins forseta talaði Halla Tómasdóttir gegn vopnakaupum og sagðist vilja vera boðberi friðar og taka samtalið við þjóðina.
Hér eru nokkrar tilvitnanir úr forsetaframboði Höllu Tómasdóttur fyrr á þessu ári:
- „Það er ekki sjálfsagt að kaupa vopn, það er ekki sjálfsagt og Íslendingar úti um allt land hafa tekið undir með mér“ Halla Tómasdóttir, Forsetafundur Morgunblaðsins Reykjanesbæ.
- Í vopnakaupamálinu segist Halla heyra mikinn samhljóm meðal þjóðarinnar að þjóðin vilji ekki taka þátt í slíku athæfi. Halla segir að vel hefði verið hægt að semja um aðrar lausnir en þær að fjármagna vopnakaup. Viðtal á Útvarp Sögu
- „Ég er hlynnt því að við tökum alltaf afstöðu með friði og nýtum öll okkar áhrif til þess að fara fyrir friði. Við erum í varnarbandalagi – varnarbandalagi er lykilorð – ekki sóknarbandalagi með Atlantshafsbandalaginu og það er mín skoðun að við getum verið þátttakendur í því og vestrænu samstarfi án þess að leggja fé til vopnakaupa“ Halla Tómasdóttir Reykjanesbæ
- Stefán sagði að það þyrfti vopn til að verjast Rússum og þá sagði Halla: „Já og það eru margar þjóðir – í rauninni allar – að skipa sér í lið í þessu stríði, í Mið-Austurlöndum, í sautján stríðum í Afríku og það eru stríð úti um allan heim. Við getum verið litla þjóðin sem lyftir grettistaki í heiminum með því að velja frið,“ sagði hún.
- ,Það kom mér mjög á óvart að heyra af þessum vopnakaupum og ég upplifi það um allt land að það hafi komið þjóðinni á óvart". Þá sagði Halla að það væri annað að vera i varnarbandalagi en að taka þátt í hernaði með vopnakaupum.
- Halla Tómasdóttir sagði það hafa komið sér á óvart að íslensk stjórnvöld hefðu lagt fjármuni í vopnakaup. Það væri eitt af grunngildum þjóðarinnar að vera friðsöm. Það væru aðrar leiðir til að taka þátt í varnarbandalagi en með vopnakaupum, t.d. með samstarfi við fyrirtæki á borð við Kerecis og Össur. Hún telji að þjóðin vilji ekki taka beinan þátt í stríði og friður sé það sem hún sjálf vilji hafa í hávegum. Kappræður Stöð2
- Er friður nýtt grunngildi? „Mér segir svo hugur, eftir að hafa heimsótt fólk um allt land og alla borg – ólíkar kynslóðir og ólíka hópa, að friður myndi sennilega bætast við núna.“ (Halla Tómasdóttir í Forystusæti RÚV)
Ríkisstjórn í andstöðu við þjóðina
Samkvæmt skoðanakönnunum undanfarið nú síðast 4. október s.l. er fylgi ríkisstjórnarflokkana hrunið í 20% samkvæmt könnun Prósent og nokkrum dögum fyrr var birt Gallup könnun með svipuðum niðurstöðum. Margir telja ástæðu fylgishruns ríkisttjórnarinnar megi m.a. rekja til stuðnings við hernað þvert á þjóðarvilja. Það er auðvitað fullkomið ábyrgðarleysi ef einstaklingar í hlutverki alþingismanna sem hafa í raun misst sitt umboð eða traust þjóðarinnar taka slíkar ákvarðanir eins og kaupa vopn og senda peninga úr landi til stuðnings hernaðar á fjarlægum slóðum sem ekki snertir varnir landsins og sem í raun að mati fjölda sérfræðinga og forseta Íslands er líklegt til að leiða til þess að Ísland verði skotmark kjarnorkuvopna.
Mun forsetinn standa við kosningaloforðin?
Þjóðin tók undir friðarboðskap Höllu Tómasdóttur og veitti henni traust til að gerast sinn öryggisventill á Bessastöðum. Nú reynir á þetta. Þér ber skylda að bregðast ekki trausti þjóðarinnar og synja fjárlögum frá Alþingi sem innihalda vopnakaup til stuðnings erlendu ríki.
Forsetinn þarf að stíga inn í umræðuna
Aðspurð í Forystusæti RÚV varðandi þátttöku forseta í pólitískum umræðum hversdagsins. Þegar koma upp siðferðisleg álitamál sem snerta þjóðina djúpt, á forseti þá að stíga inn í umræðuna og segja sína skoðun? „Ég er þeirrar skoðunar að forseti eigi að fara fyrir grunngildum þjóðarinnar – tala um þau og tala fyrir þeim. Þegar við virðumst týnd og dönsum ekki í takt við grunngildi þjóðarinnar eigi forsetinn að hefja máls á því.“
Málskotsréttur
Halla Tómasdóttir birti þennan texta um málsskotsrétt forseta á heimasíðu sinni fyrir forsetaframboðið 2024: "Forseti Íslands hefur samkvæmt 26. grein stjórnarskrárinnar heimild til að vísa lögum í dóm þjóðarinnar. Málskotsrétturinn er mikilvægur öryggisventill, sem Halla er staðráðin í að nýta ef svo virðist sem gjá hafi myndast á milli þings og þjóðar. Hún telur mikilvægt að umgangast málskotsréttinn af virðingu og minnir á að forseta beri að hlusta vel á öll sjónarmið áður en komist er að þeirri niðurstöðu að þjóðin þurfi að hafa úrslitavald með atkvæðagreiðslu um hvort lögin öðlast gildi. Þetta gætu verið tilvik á borð við mannréttindi og grundvallarhagsmuni þjóðarinnar og næstu kynslóða eins og var í tilfelli Icesave."
Í Forystusæti RÚV varðandi málskotsrétt forseta segist Halla muni standa í lappir ef þörf er á. Ólafur Ragnar hafi gert rétt í að synja Icesave-samningum staðfestingar. „Hvað mig varðar myndi ég vilja hlusta vel á þjóðina. Og ef ég skynjaði að um stór mál væri að ræða sem varða hagsmuni þjóðarinnar og næstu kynslóða, myndi ég vilja gefa þjóðinni úrslitaatkvæði ef svo virtist sem þingið væri að ganga úr takti við gildi og vilja þjóðarinnar.“
Í kappræðum mbl.is 31 maí sagði Halla Tómasdóttir: “Og nú spyr þjóðin um málskotsréttinn vegna þess að traustið á Alþingi er lágt og ég óttast ekki að nýta hann,“.
Mun forseti Íslands stöðva landráðin?
Friður 2000 leggur til að Alþingi Íslendinga fjarlægi heimildir til vopnakaupa úr fjárlögum og láti ekki reyna á það á Bessastöðum hvort fjárlög fyrir komandi ár verði sett í uppnám með synjun forseta Íslands.
Eins og nýkjörinn forseti Íslands kynnti sín stefnumál og skoðanir sínar á vopnakaupum fyrir þjóðinni í aðdraganda forsetakosninga fyrr á þessu ári getur forsetinn ekki undirritað lög um vopnakaup nema vísa þeirri ákvörðun til þjóðarinnar.
Yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar er á móti vopnakaupum
Forsetinn lýsti því yfir í sínu framboði fyrir aðeins örfáum mánuðum síðan að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar sé á móti þátttöku í stríði og vopnakaupum. Frú forseti lýsti því jafnframt yfir að vopnakaup væru stórt mál sem varðar hagsmuni þjóðarinnar og næstu kynslóða og það væri eitt af grunngildum þjóðarinnar að vera friðsöm. Hún sagði að taka þátt í vopnakaupum væri hættulegasta öryggisstefnan sem þjóðin gæti tekið og öruggasta stefnan væri að taka ekki þátt í þessum átökum.
Sjá má myndband á síðunni www.austurvollur.is þar sem Halla talar fyrir friði og gegn vopnakaupum og lýsir því að hún hafi talað við fólk og hlustað við fólk úr öllum samfélagshópum og kynslóðum um allt land sem hafi tekið undir með henni að vilja frið og hafni vopnakaupum.
Forseti Íslands sem öryggisventill þjóðarinnar á Bessastöðum hefur ekki annað val en að vísa vopnakaupum í þjóðaratkvæðagreiðslu
Það er því ljóst að forseti Íslands hefur ekkert val um annað en hafna fjárlögum með vopnakaupum ætli forsetinn ekki að svíkja sína kjósendur og sjálf fremja landráð. Forsetinn þarf einnig að taka tillit til þess að gjá hefur nú myndast á milli þings og þjóðar þegar sú staða er komin upp að meirihluti alþingismanna hefur ekki stuðning þjóðarinnar samanber ítrekaðar kannanir við fylgi ríkisstjórnarflokkana að undanförnu.
Ljóst má vera að þjóðin mun hafna vopnakaupum í þjóðaratkvæðagreiðslu því slíkar aðgerðir grafa undan öryggi þjóðarinnar og fjármunum okkar er betur varið í annað eins og forseti Íslands kynnti þjóðinni í forsetaframboði sínu fyrr á árinu.
Við vonum að alþingismenn sjái að sér og fjarlægi vopnakaup og stuðning við hernað úr fjárlagafrumvarpinu áður en það er sent friðarforsetanum á Bessastöðum og þess í stað að setja á fót átak undir forystu forseta Íslands til að hefja tafarlaust friðarviðræður við Rússland.
Alþjóðastofnunin Friður 2000
Ástþór Magnússon
Bréfið til Aþingis í PDF skjali:
Althingi-Fjarlog-Umsogn-oktober2024-Signed
Sendu grein til birtingar:
Sendu forsetanum hvatningu
Láttu heyra í þér og sendu hvatningu og áskorun til Höllu Tómasdóttur
STÖÐVUM VOPNAKAUPIN
Styrktu kynningarátakið
Við þurfum fjármuni til að greiða auglýsingar og kynningar til einstaklinga og fyrirtækja.
Greiða með korti eða leggja inná banka:
0133-15-008494 Kt: 540795-2589 Friður2000
Skráð sem opinber fjársöfnun hjá Sýslumanni